banner

Okkar keppendur stóðu sig vel á EM Junior/U21 í Búlgaríu

Ísland átti sjö keppendur á Evrópumóti unglinga, sem fór fram í Sofia, Búlgaríu, dagana 17. til 19. Febrúar síðastliðinn.  Um 1.150 keppendur frá 39 þjóðum á aldrinum 14 til 21 árs kepptu á mótinu og samanstóð íslenski hópurinn af Sigríði Hagalín Pétursdóttur, KFR, og Aroni Huynh, ÍR, en þau keppa bæði í Kata.  Kumitekeppendur voru Embla Kjartansdóttir, Iveta Ivanova, Katrín Ingunn Björnsdóttir, Máni Karl Guðmundsson og Ólafur Engilbert Árnason, öll úr Fylki.

Þrír keppendur stigu á svið á EM unglinga í karate á föstudeginum. Þá keppti Sigríður Hagalín Pétursdóttir í kata cadet, þar sem hún mætti Isidora Borocanin frá Bosníu og Hersegovíu. Þannig fór að Isidora bar sigur úr bítum og Sigríður datt út eftir góða keppni.
Hér má sjá video af Sigríði á EM
https://www.youtube.com/watch?v=AUaUhV1tm4o

Aron Huynh keppti næstur í Kata Junior og atti hann kappi við David Nhuyen frá Hvíta Rússlandi, fóru leikar þannig að Aron sigraði 4-1 með flottri frammistöðu og fór síðan í aðra umferð þar sem hann keppti við Vladimir Mijac frá Makedóníu. Vladimir var Aroni of sterkur og datt hann því út. Aron átti sérlega góðan dag og er ljóst að Aron, sem er karatemaður ársins, er á góðri siglingu.
Hér má sjá video af Aroni á EM
https://www.youtube.com/watch?v=KQhD7Rk1eS4

Embla Kjartansdóttir keppti síðar um daginn í Kumite, en Embla keppir í -54 kg. flokki cadet. Embla er lítil í flokknum þar sem hún er tæp 50 kg en flestar stelpurnar í flokknum eru hærri og um 54 kg. Embla keppti við Vesa Ibrahimi frá Kosovo og var stóð hún sig mjög vel og skoraði meðal annars fyrsta stigið en í enda bardagans komst Vesa yfir og sigraði. Embla datt því út og er reynslunni ríkari glöð í bragði.
Hér má sjá video af Emblu á EM
https://www.youtube.com/watch?v=arS5cZZK0TM&feature=youtu.be

Það var stórt verkefni sem Iveta Ivanova fékk á Evrópumótinu í Sofia á laugardeginum, er hún mætti Berazza Laura Urra frá Spáni í junior flokki 16 og 17 ára í kumite. Iveta er nýorðin 16 ára og því nýkomin upp i junior flokk og það var því áskorun að keppa við Berazza þar sem Spánn hefur átt eitt af bestu liðum í Evrópu og heiminum. Stelpurnar voru áþekkar að stærð og ljóst í upphafi viðureignarinnar að báðar báru mikla virðingu fyrir hvori annarri en svo fór að Berazza náði sigri með minnstum mögulega stigamun, 1-0. Berazza sigraði síðan Gloria Olic frá króatíu en tapaði síðan fyrir Lara Sophia Hinterseer frá Sviss, sem fór i úrslit.
Iveta datt þannig út og er reynslunni ríkari eftir mótið.
https://www.youtube.com/watch?v=EQkAdXwdtdI&feature=youtu.be

Sunnudagurinn hjá íslendingum á EM unglinga í Sofia var viðburðaríkur þó ekki sé meira sagt en fyrstur á svið var Máni Karl Guðmundsson, en hann keppti við Erik Klimov frá Eistlandi í fyrstu umferð undir 21 árs í -67 kg. flokki. Eftir snarpa og taktíska viðureign sigraði Máni 1-0 og atti síðan kappi við Bleu Parris, frá Englandi. Englendingurinn reyndist betri í dag og landaði sigri 5-0. Máni komst ekki áfram í uppreisn þar sem englendingurinn komst ekki í úrslit. Máni vann mjög vel í dag og sýndi að hann er á góðri siglingu þessa dagana.
https://www.youtube.com/watch?v=FrlWRxxy80Y&feature=youtu.be

Ólafur Engilbert Árnason atti kappi við Giorgos Papageorgiou frá Kýpur í -75 kg flokki undir 21 árs og sigraði Ólafur nokkuð örugglega 2-0 og komst þannig í aðra umferð þar sem hann mætti Djordje Salapura frá Serbíu. Í lok bardagans, þar sem Ólafur var með stöðuna 2-1 ýtti serbinn Ólafi afturábak þannig að Ólafur steig útaf, eftir að dómarinn hafði stöðvað bardagann, en Ólafur var dæmdur úr bardaganum þar sem hann hafði stigið tvisvar sinnum út af vellinum í viðureigninni. Þetta gerðist í blálok bardagans og Ólafur datt því út úr keppni þar sem ekki er hægt að bregða dómi eftirá. Gríðarlega svekkjandi þar sem Ólafur var að tryggja sig inn í 8 manna úrslit á þessu stórmóti.
https://www.youtube.com/watch?v=zWKY8NjzgYw&feature=youtu.be

Katrín Ingunn Björnsdóttir gerði gott úr sínu er hún keppti við Sara Stanko frá Sloveníu í -68 kg flokki undir 21 árs, en slóveninn var einfaldlega einu númeri of sterk fyrir Katrínu og fór með sigur af hólmi 5-0. Katrín hefur bætt sig töluvert frá því fyrr á árinu og kemur reynslunni ríkari frá mótinu hér í Sofia.
https://www.youtube.com/watch?v=nN5tq-isryA&feature=youtu.be

Lokaniðurstaða af þessu móti er á þeim nótum að við eigum fullt erindi inná völlinn með stóru þjóðunum. Það er gríðarleg bæting í hópnum og nú er mikilvægt að styðja vel við bakið á þeim til frekari afreka.

About Helgi Jóhannesson