banner

Góður árangur á Sen5 Rhein Shiai í Þýskalandi

Ferðin til Þýskalands gekk einstaklega vel. Keppendur Ísland voru að þessu sinni Aron Bjarkason, Hugi Halldórsson, Iveta Ivanova, María Bergland Traustadóttir, Samuel Josh Ramos og Viktoría Ingólfsdóttir.

Hugi, María og Viktoría eru nýgræðingar, koma úr unglingaliðinu, og stóðu sig öll mjög vel. Fyrirkomulagið var þannig að í hverjum flokki kepptu nokkrir 5 manna hópar innbyrðis, allir við alla, og fóru sigurvegararnir úr hverjum hóp í undanúrslitahóp þar sem keppt var með útslætti.
Hugi og María sigruðu þrjár viðureignir og töpuðu einni hvort um sig.
Viktoría sigraði eina viðureign, gerði eitt jafntefli og tapaði tveimur.

Aron Bjarkason kom, sá og sigraði í -61 kg Junior er hann vann sinn hóp, sigraði allar fjórar viðureignir, þar á meðal besta keppanda Þýskalands í flokknum. Aron datt hins vegar út í undanúrslitahópnum í framhaldinu, frábær dagur hjá Aroni.

Samuel Josh Ramos sigraði einnig sinn hóp, sigraði síðan fyrsta í undanúrslitahóp en tapaði síðan í undanúrslitunum fyrir mjög sterkum tékkneskum landsliðsmanni sem vann flokkinn. Samuel fékk þar með brons.

Iveta Ivanova sigraði 5 bardaga í röð í -53 kg. flokki Junior en þar atti hún m.a. kappi við besta keppanda Hollands, Nadine Hollander, eina þýska landsliðskonu, tvær landsliðskonur frá Tékklandi og loks besta keppanda Þýskalands, Jill Auger, í úrslitum. Iveta og Jill Auger hafa keppt áður til úrslita á móti í Þýskalandi en í fyrra náði Auger að sigra naumlega og því var sigur Ivetu því sætari í þetta sinn, sér í lagi þar sem þær kepptu aftur á heimavelli Auger.

Viðburðurinn var frábær, góðar æfingar í umsjón reyndra þjálfara frá Þýskalandi og víðar og var mótið vel skipulagt, 10 vellir og hóflegar seinkanir á dagskrá. Standardinn var mjög góður í öllum flokkum, mikið af landsliðsfólki og einnig frambærilegum félagsliðum.

Miðað við niðurstöður þá má segja að það gangi vel að tengja yngri iðkendur við þá reyndari, allir aðilar þessa hóps voru til mikillar fyrirmyndar og það er ljóst að ef allt fer að óskum þá mun KAÍ eignast enn fleiri frambærilega keppendur í eldri unglingaflokki og vonandi fullorðinsflokki í framtíðinni.

About Reinhard Reinhardsson