banner

Opnar landsliðsferðir

Landsliðsnefnd hefur samþykkt reglur um svokallaðar opnar landsliðsferðir. Hugmyndin með þeim er að gefa fleiri iðkendum í æfingahópum landsliðs / unglingalandsliði tækifæri til að spreyta sig í keppni undir merkjum landsliðsins.

Þessar opnu ferðir verða tilraunaverkefni í ár, og ef vel gengur verður haldið áfram með þetta fyrirkomulag á árinu 2021.

Fyrsta opna landsliðsferðin er fyrirhuguð á kumitemótið Amsterdam Open dagana 3.–6. apríl næstkomandi. Upplýsingar um ferðatilhögun verða sendar á félögin ásamt nafnalista yfir þá keppendur sem eiga kost á þátttöku. Önnur mót eftir þessu fyrirkomulagi verða tilkynnt þegar nær dregur.

Reglur um opnar landsliðsferðir

Opnar landsliðsferðir eru sérstaklega auðkenndar á áætlun KAÍ og auglýstar með a.m.k. 2ja mánaða fyrirvara fyrir karatefélögum landsins.

Styrktir keppendur
Fyrirfram ákveðinn fjöldi keppenda í opinni landsliðsferð er á KAÍ-styrk. Landsliðsþjálfari velur þau úr æfingahópi sínum og KAÍ bókar fyrir þau og innheimtir framlag iðkenda/félaga eins og fyrir hefðbundnar landsliðsferðir.

Óstyrktir keppendur
Fyrirfram ákveðinn listi keppenda á kost á að vera skráður af landsliðinu en ferðast á eigin kostnað. KAÍ sér ekki um að bóka flug eða gistingu fyrir þau en upplýstir með a.m.k. 2ja mánaða fyrirvara um ferðaáætlun (flug og hótel) þjálfara og styrktra keppenda.

Vilji óstyrktur keppandi vera skráður á mót undir merkjum landsliðsins verður keppandinn (eða forsjáraðili keppenda undir 18 ára aldri) að staðfesta það innan tveggja vikna frá því að ferðaáætlun er gefin út.

KAÍ ber ábyrgð á að skrá óstyrkta keppendur á mótið.

Óstyrktir keppendur sem ekki eru bókaðir á sama hótel og KAÍ notar verða að vera með fullorðinn fylgdaraðila og eru á hans ábyrgð í ferðinni utan keppnishallarinnar. Á mótsstað eru þeir eru á ábyrgð fararstjóra og þjálfara KAÍ.

Keppendur sem ekki eru á styrk frá KAÍ greiða KAÍ andvirði keppnisgjalda sinna + 5.000 krónur sem rennur upp í ferðakostnað fararstjóra og þjálfara KAÍ.

Fararstjórar og þjálfarar
KAÍ greiðir ferðakostnað og uppihald þjálfara og fararstjóra á sínum vegum. Fjöldi fararstjóra og þjálfara er áætlaður m.v. fjölda hugsanlegra keppenda.

Ef þurfa þykir og fjárhagur leyfir getur KAÍ bætt við fararstjóra/þjálfara, en ber þó engin skylda til þess.

Félög geta boðið fram þjálfara til að aðstoða KAÍ með hópinn, en KAÍ áskilur sér rétt til að þiggja eða afþakka þá aðstoð. Þeir þjálfarar ferðast á kostnað síns félags.

Samþykkt 23. janúar 2020

Landsliðsnefnd:
Elías Guðni Guðnason, formaður
María Helga Guðmundsdóttir
Stefán Alfreðsson

About María Helga Guðmundsdóttir