banner

Átta verðlaun á Opna sænska í karate

Íslenska landsliðið í karate vann til átta verðlauna á Opna sænska meistaramótinu sem fór fram í Kristianstad í gær, laugardaginn 9. apríl. Mótið er liður í undirbúningi fyrir Evrópumeistaramót fullorðinna í Tyrklandi í maí og Evrópumeistaramót 14–20 ára ungmenna í Prag í júní. Með hópnum á mótinu voru landsliðsþjálfararnir María Helga Guðmundsdóttir og Sadik Sadik, Ólafur Helgi Hreinsson aðstoðarþjálfari og Reinharð Reinharðsson fararstjóri og dómari.

Gull, silfur og brons í katakeppni
Í kata 13 ára drengja kepptu Adam Ómar Ómarsson og Jakub Kobiela til úrslita eftir að hafa unnið þrjá andstæðinga hvor í undaumferðum. Eftir jafna og góða úrslitaviðureign fóru stigin 2–1 og Adam hreppti gull og Jakub silfur. Drengirnir voru báðir að keppa í fyrsta sinn á erlendri grund.

Í kata 13 ára stúlkna keppti Embla Rebekka Halldórsdóttir. Embla tapaði í fyrstu umferð fyrir sigurvegara flokksins, sterkum sænskum keppanda. Þar sem mótherjinn fór áfram í úrslit fékk Embla uppreisn, vann þar allar sínar viðureignir og hreppti brons.

Í kata fullorðinna áttu Þórður Jökull Henrysson, Tómas Pálmar Tómasson og Eydís Magnea Friðriksdóttir öll öfluga spretti. Fullorðinsflokkarnir voru stórir og prýddir sterkum keppendum, þar á meðal Norðurlandameisturum og verðlaunahöfum af Evrópumeistaramótum. Tómas Pálmar varð í 5. sæti eftir þrjá sigra og 3–2 tap í bronsviðureign; Þórður Jökull hafnaði í 7. sæti eftir 3–2 tap fyrir bæði bronsverðlaunahafa og sigurvegara flokksins; og Eydís Magnea náði einnig 7. sæti í kvennaflokki. Eydís komst einnig í fjórðungsúrslit í stúlknaflokki 16–17 ára.

Aðrir keppendur í kata voru þau Eðvarð Egill Finnsson, Daði Logason og Una Borg Garðarsdóttir. Þau framkvæmdu öll ágætar kata en duttu út í fyrstu umferð í sínum flokkum.

Tvö silfur og þrjú brons í kumite
Kumitekeppendur Íslands voru sex og komu heim með fimm verðlaun.

Bestum árangri náði Samuel Josh Ramos, sem vann yfirburðasigur í undanúrslitum –67 kg flokks karla, 8–0, og tryggði sér sæti í úrslitum. Þar mætti hann Ansan Khosravi, þreföldum Svíþjóðarmeistara sem vann fjórar viðureignir á síðasta heimsbikarmóti. Samuel stjórnaði viðureigninni frá upphafi og var á tímabili fjórum stigum yfir. Svíinn náði þó að vinna upp forskotið á síðustu sekúndunum með sparki og fellingu sem gáfu þrjú stig hvort, og fór bardaginn að lokum 10–9 fyrir Khosravi. Var það álit flestra sem á horfðu að bardaginn hefði verið einn sá besti á mótinu.

Ólafur Engilbert Árnason tryggði sig einnig örugglega í úrslit í –75 kg flokki karla með 6–0 sigri á Svíanum Harutyun Hovsepyan. Í úrslitum mætti hann Svíþjóðarmeistaranum Ricky Haag. Haag varð hlutskarpari með 4 stig gegn 1 stigi Ólafs.

Í unglingaflokkum kepptu þau Davíð Steinn Einarsson í –57 kg flokki 14–15 ára, Karen Thuy Duong Vu í –47 kg flokki 14–15 ára, Alexander Rósant Harðarson í –68 kg flokki 14–15 ára og Hugi Halldórsson í –76 kg flokki. Davíð, Alexander og Hugi unnu allir til bronsverðlauna í sínum flokkum eftir góða sigra. Karen komst ekki á verðlaunapall að þessu sinni en átti góða spretti á móti sterkum mótherjum.

Aftari röð frá vinstri: Tómas Pálmar, Eydís, Þórður, Karen, Una, Eðvarð, María Helga.
Fremri röð frá vinstri: Alexander, Jakub, Adam, Embla, Samuel, Davíð, Ólafur Engilbert, Hugi.

About Reinhard Reinhardsson